Dalsmynnismálið kært til Mannréttindadómstóls Evrópu

Það fer vel á því að í dag, þjóðhátíðardag vorra Íslendinga mun ég senda inn formlega kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu, vegna dóms Hæstaréttar Íslands nr. 239/2015 Árni Stefán Árnason gegn Ástu Sigurðardóttur og Hundaræktinni ehf.

Ég hlakka til að fá viðbrögð við því hvort dómstóllinn tekur málið til meðferðar og vona að þau tvö ummæli, sem eftir standa (af 8) falli mér í hag og standi óhögguð en þau voru og ég stend við fyrir það tímabil sem um er að ræða í rekstri Dalsmynnis:

Samantekin niðurstaða Hæstaréttar Íslands var þessi og ég fellst ekki á:

,,Í málinu kröfðust ÁS og H ehf. ómerkingar tiltekinna ummæla um þau sem birtust í grein ÁSÁ á bloggsvæði hans á tilgreindum vefmiðli. Þá gerðu þau kröfu um að honum yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Fyrirsögn greinarinnar var „Dýraníð að Dalsmynni“ og beindist umfjöllunin einkum að ætlaðri illri meðferð ÁS og H ehf. á hundum sem þar voru ræktaðir til sölu á almennum markaði, meðal annars var staðhæft með almennum hætti að ÁS hefði brotið gegn dýraverndarlögum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar ummælin væru virt og metið hvort þau fælu í sér ærumeiðingar og aðdróttanir í garð ÁS og H ehf., bæri að gera það í því ljósi að nokkur almenn umræða hefði átt sér stað um starfsemi þeirra og að ÁSÁ hefði látið sig varða dýravernd og málefni dýra og teldi sig hafa sérfræðiþekkingu á reglum sem gilda á því sviði. Talið var að orðið dýraníð fæli í sér ásökun um slæma eða svívirðilega meðferð á dýrum. ÁSÁ hefði verið fullkunnugt um inntak orðsins og hefði engin þörf verið á að nota slíkt gífuryrði í fyrirsögninni. Hvað varðaði hin meintu lögbrot ÁS taldi Hæstiréttur að ÁSÁ hefði ekki hagað ummælunum eins og um væri að ræða gildisdóm, eins og hann hélt fram, heldur þvert á móti eins og staðreyndin væri sú að ÁS hefði af ásetningi brotið gegn dýraverndarlögum. Hefði ÁSÁ því gerst brotlegur við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og voru framangreind ummæli því ómerkt. Á hinn bóginn var ekki fallist á að ómerkja bæri tiltekin ummæli ÁSÁ um að ÁS hefði „eitthvað að fela“ þar sem hún leyfði ekki myndatökur af aðbúnaði hundanna á starfstöðinni. Talið var, í ljósi þeirrar almennu umræðu sem fram hefði farið um starfsemi ÁS og H ehf., að með því að hafna slíkri beiðni hefðu þau getað búist við gagnrýni í þá veru sem ÁSÁ hafði uppi að þessu leyti. Loks var ekki fallist á kröfu ÁS og H ehf. um birtingu dóms. Samkvæmt öllu framansögðu var ÁSÁ gert að greiða ÁS 200.000 krónur í miskabætur”.

Dómana tvo, héraðs og hæstaréttadóminn má lesa hér fyrir neðan.

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Með kveðju,
Árni Stefán Árnason
dýraréttarlögfræðingur

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast hvort fyrir sitt leyti staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Ummæli þau, sem ómerkt voru með hinum áfrýjaða dómi, viðhafði áfrýjandi í grein sem hann ritaði 9. október 2013 á svonefndu bloggsvæði sem hann hafði til umráða á vefnum www.dv.is. Fyrirsögn greinarinnar var: ,,Dýraníð að Dalsmynni“. Í upphafi greinarinnar rakti áfrýjandi að niðurstaða hans, eftir að hafa horft á tiltekinn sjónvarpsþátt um það sem hann nefndi ,,hundabúið að Dalsmynni“ væri, að héraðsdýralæknir hafi með ámælisverðum hætti gerst brotlegur við ,,lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr“ en við slíku gæti legið refsing. Þá sagði: ,,Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðað allt að tveggja ára fangelsi.“

Í framhaldi af þessum ummælum fjallaði svo áfrýjandi í grein sinni um ábyrgð þess ráðherra, sem gefið hafði út reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Áfrýjandi lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi að reglugerðin væri að efni til ekki í samræmi við lög. Þá lýsti hann því að umboðsmaður Alþingis gæti gripið í taumana vegna þess að honum bæri að benda Alþingi ,,eða hlutaðeigandi ráðherra á meinbugi á lögum“ sem áfrýjandi kvað umrædda reglugerð vera. Að því búnu fjallaði hann um framangreindan sjónvarpsþátt og hvað þar kom fram. Í því sambandi lét hann falla þriðju ummælin, sem ómerkt voru með hinum áfrýjaða dómi. Í þeim hluta greinarinnar sagði meðal annars: ,,Það vakti undrun mína að Ásta vildi ekki leyfa myndatökur innandyra. Stoltur ræktandi sýnir viðskiptavinum sínum að sjálfsögðu þá aðstöðu, sem hann býður hundum sínum uppá. Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“ Síðasta setningin var ómerkt með héraðsdómi.

Í síðustu tveimur hlutum greinarinnar fjallaði áfrýjandi annars vegar um starfsleyfi stefnda Hundaræktarinnar ehf. og kom þar fram sú skoðun hans að starfsemi eins og stefndu stæðu fyrir ætti ekki að fá starfsleyfi samkvæmt lögum, en hafi fengið það á grundvelli framangreindrar reglugerðar, sem ekki samrýmdist lögunum. Hins vegar fjallaði hann um ný lög nr. 55/2013 um velferð dýra, sem hann taldi girða fyrir starfsemi eins og stefndu standa fyrir.

II

Þegar ummæli áfrýjanda, sem eru til úrlausnar hér fyrir dómi, eru virt og metið hvort þau feli í sér ærumeiðingar og aðdróttanir í garð stefndu, ber að gera það í því ljósi að nokkur almenn umræða hefur orðið um þá starfsemi stefndu sem um ræðir. Var meðal annars um hana fjallað í framangreindum sjónvarpsþætti og ekki er um það deilt að tilefni þeirrar umfjöllunar voru fjölmargar áskoranir um að starfsemin yrði tekin til athugunar þar sem aðbúnaður dýranna væri þar ekki sem skyldi. Áfrýjandi hefur látið sig varða dýravernd og málefni dýra og telur sig hafa sérfræðiþekkingu á reglum sem gilda á því sviði. Í ljósi þess var ekki óeðlilegt að hann tæki þátt í almennri umræðu um málefnið og ritaði grein eins og þá, sem hefur að geyma hin umþrættu ummæli.

Vefurinn www.dv.is er fjölmiðill eins og það hugtak er skilgreint í 13. tölulið 2. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Skrif áfrýjanda á svæði því sem hann hafði til umráða á vefsvæðinu birtust þannig í fjölmiðli og fer um ábyrgð hans á þeim samkvæmt a. lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011.

Orðin ,,Dýraníð að Dalsmynni“ sem er fyrirsögn greinar áfrýjanda bera það ein og sér ekki með sér að þau feli í sér persónulega skoðun hans, og heldur ekki þótt þau séu sett í samhengi við efni greinarinnar. Samsetta orðið ,,dýraníð“ er ekki að finna í þeirri orðabók, sem greinir í héraðsdómi. Með orðunum níð og níðingur er í daglegu tali vísað til smánarlegrar eða svívirðilegrar háttsemi, en ekki eingöngu vanrækslu á umhyggju. Orðið dýraníð felur því í sér ásökun um slæma eða svívirðilega meðferð á dýrum. Áfrýjanda var fullkunnugt um þetta inntak orðsins og honum var engin þörf á að nota slíkt gífuryrði í umfjöllun sinni, heldur gat hann notað hófstilltari fyrirsögn sem samrýmdist meginefni greinar hans. Verður fallist á með stefndu að orðin ,,Dýraníð að Dalsmynni“ séu ærumeiðandi fyrir þau og að þau þurfi ekki að sitja undir slíkri fullyrðingu, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er með orðunum einnig dróttað að stefndu að þau ástundi háttsemi sem verða myndi virðingu þeirra mjög til hnekkis og fela þau þannig í sér brot á 235. gr. sömu laga. Verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þessara orða því staðfest.

Í greininni sjálfri komst áfrýjandi svo að orði: ,,Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðað allt að tveggja ára fangelsi.“ Þessi ummæli fela í sér almenna staðhæfingu um lögbrot stefndu Ástu og að þau brot geti varðað hana fangelsisrefsingu. Þótt áfrýjandi skírskoti til þess hvernig ætluð brot þessarar stefndu blasi við honum verður ekki litið framhjá því að með framangreindum ummælum í heild hagaði hann ekki orðum sínum eins og um væri að ræða slíkan gildisdóm, heldur þvert á móti eins og staðreyndin væri sú að þessi stefnda hafi af ásetningi brotið gegn dýraverndarlögum. Ummælin verður að virða í samhengi við fyrirsögn greinarinnar, sem áður er fjallað um. Í þessu tilviki var áfrýjanda einnig í lófa lagið að nota hófstilltara orðalag til þess að koma því á framfæri sem efnislega felst í hinum tilvitnuðu orðum. Verður sú niðurstaða héraðsdóms að ummælin feli í sér brot á 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga staðfest.

Í þeim hluta greinar áfrýjanda þar sem fjallað var um sjónvarpsþátt þann er áður greinir sagði meðal annars: ,,Það vakti undrun mína að Ásta skyldi ekki leyfa myndatökur innandýra. Stoltur ræktandi sýnir viðskiptavinum sínum að sjálfsögðu þá aðstöðu, sem hann býður hundum sínum upp á. Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“ Þegar orðin í síðastgreindu setningunni eru virt í samhengi við það sem á undan fór, verður ekki talið að þau feli í sér ærumeiðingu í garð stefndu. Í því sambandi verður að líta til þess að stefndu ræktuðu hunda til sölu á almennum markaði og var því ekki óeðlilegt, í ljósi þeirrar almennu umræðu sem fram fór, þótt gerð yrði krafa um að þau sýndu aðbúnað dýranna á starfstöðinni. Með því að hafna slíkri beiðni gátu stefndu búist við gagnrýni í þá veru sem áfrýjandi hafði uppi að þessu leyti. Verður því ekki fallist á að ómerkja orðin í síðustu setningunni.

III

Niðurstaða héraðsdóms um miskabætur úr hendi áfrýjanda til handa stefndu Ástu verður staðfest, svo og ákvæði hans um vexti af fjárhæðinni.

Í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga er sérstök heimild til þess að dæma þann, sem sekur gerist um ,,ærumeiðandi aðdróttun“ til þess að greiða þeim, sem misgert er við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði, einu eða fleiri. Stefndu reistu kröfu sína um birtingu dóms á þessu ákvæði og var á það fallist í héraðsdómi. Ákvæði 2. mgr. 241. gr. er sérregla og verður ekki skýrð á annan hátt en þann að hún heimili að dæmd sé tiltekin fjárhæð svo sá, sem misgert er við, geti kostað birtingu dómsins í heild eða að hluta í opinberu blaði eða riti. Á hinn bóginn verður krafa stefndu um þetta studd við 1. mgr. 59. gr. laga nr. 38/2011, en það ákvæði heimilaði að áfrýjandi yrði dæmdur að viðlögðum dagsektum til þess að birta forsendur og dómsorð á svæði sínu, sem hann hafði til umráða á vefmiðlinum www.dv.is. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti áfrýjandi því yfir að hann hefði þetta svæði ekki lengur til afnota og heldur ekki annað sambærilegt svæði á vefmiðli. Verður hann því ekki dæmdur til að birta forsendur og dómsorð þessa dóms opinberlega.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest.

Áfrýjandi greiði stefndu hvoru fyrir sig málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummælanna: ,,Dýraníð að Dalsmynni“ og ,,Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðað allt að tveggja ára fangelsi.“

Að öðru leyti er áfrýjandi sýknaður af ómerkingarkröfu stefndu.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og málskostnað skulu vera óröskuð.

Áfrýjandi, Árni Stefán Árnason, greiði stefndu, Ástu Sigurðardóttur og Hundaræktinni ehf., hvoru um sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. september sl., höfðuðu stefnendur, Ásta Sigurðardóttir og Hundaræktin ehf., Dalsmynni, Reykjavík, hinn 21. janúar 2014, gegn stefnda, Árna Stefáni Árnasyni, Ölduslóð 38, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda Ástu í málinu eru þessar:

 1. Í fyrsta lagi krefst stefnandi Ásta þess að eftirfarandi ummæli, tilgreind í stafliðum a-h, verði dæmd dauð og ómerk:
 2. a) Svofelld ummæli er birtust í fyrirsögn fréttar á vefsíðunni dv.is þann 8. október 2013:

„Þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað“

 1. b) Svofelld ummæli er birtust í meginmáli sömu fréttar á vefsíðunni dv.is þann 8. október 2013 og sem stefnandi viðhafði í sjónvarpsþættinum Málið á sjónvarps­stöðinni Skjá einum sama dag:

„Alveg örugglega. Ég hef verið sannfærður í langan tíma um að þarna sé verið að brjóta nokkur ákvæði dýraverndarlaga. Ef ég væri í stöðu til að vera héraðsdýralæknir og með þá reynslu sem ég hef að dýrahaldi, þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað“

 1. c) Svofelld ummæli er birtust í fyrirsögn greinar á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Dýraníð að Dalsmynni“

 1. d) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðar (sic) allt að tveggja ára fangelsi.“

 1. e) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Gæsalappir eru hér notaðar því ég tel að starfsemin eigi ekkert skylt við ræktun.“

 1. f) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Að Dalsmynni fer fram framleiðsla á dýrum við bágborin skilyrði“

 1. g) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“

 1. h) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Réttilega verður starfsemin að Kjalarnesi aðeins nefnd einu nafni, hvolpaframleiðsla“

 1. Í öðru lagi krefst stefnandi Ásta þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða henni 2.000.000 króna í miskabætur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2013 til 18. desember 2013, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
 2. Í þriðja lagi krefst stefnandi Ásta þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 484.405 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, það er forsendna og dómsorðs, í einu dagblaði og beri fjárhæðin dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
 3. Í fjórða lagi krefst stefnandi Ásta málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, og/eða samkvæmt mati réttarins.

Dómkröfur stefnanda Hundaræktarinnar ehf. í málinu eru þessar:

 1. Í fyrsta lagi krefst félagið þess að eftirfarandi ummæli, tilgreind í stafliðum a-h, verði dæmd dauð og ómerk:
 2. a) Svofelld ummæli er birtust í fyrirsögn fréttar á vefsíðunni dv.is þann 8. október 2013:

„Þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað“

 1. b) Svofelld ummæli er birtust í meginmáli sömu fréttar á vefsíðunni dv.is þann 8. október 2013 og sem stefnandi viðhafði í sjónvarpsþættinum Málið á sjónvarps­stöðinni Skjá einum sama dag:

„Alveg örugglega. Ég hef verið sannfærður í langan tíma um að þarna sé verið að brjóta nokkur ákvæði dýraverndarlaga. Ef ég væri í stöðu til að vera héraðsdýralæknir og með þá reynslu sem ég hef að dýrahaldi, þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað“

 1. c) Svofelld ummæli er birtust í fyrirsögn greinar á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Dýraníð að Dalsmynni“

 1. d) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðar (sic) allt að tveggja ára fangelsi.“

 1. e) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Gæsalappir eru hér notaðar því ég tel að starfsemin eigi ekkert skylt við ræktun.“

 1. f) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Að Dalsmynni fer fram framleiðsla á dýrum við bágborin skilyrði“

 1. g) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“

 1. h) Svofelld ummæli er birtust í grein á vefsíðunni dv.is þann 9. október 2013:

„Réttilega verður starfsemin að Kjalarnesi aðeins nefnd einu nafni, hvolpaframleiðsla“

 1. Í öðru lagi krefst stefnandi Hundaræktin ehf. þess að stefndi verði dæmdur til að greiða félaginu 484.405 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, það er forsendna og dómsorðs, í einu dagblaði og beri fjárhæðin dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
 2. Í þriðja lagi krefst stefnandi Hundaræktin ehf. málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, og/eða samkvæmt mati réttarins.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Til vara krefst stefndi þess, verði fallist á miskabótakröfu stefnanda, að krafan verði lækkuð verulega. Enn fremur, verði fallist á kröfur stefnenda um birtingu dóms, krefst stefndi þess til vara að honum verði gert að birta dóminn og forsendur hans á bloggsvæði stefnda: http://www.dv.is/blogg/arni-stefan/.

Í öllum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Stefnandi Hundaræktin ehf. er fyrirtæki sem elur hunda að Dalsmynni á Kjalarnesi til sölu til almennings. Stefnandi Ásta er eigandi og rekstraraðili fyrirtækisins.

Hinn 8. október 2013 birtist frétt á vefsíðunni dv.is undir fyrirsögninni: „Dýraverndarlögfræðingur: „Þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað““. Í fréttinni kom fram að um kvöldið yrði sýndur sjónvarpsþáttur á sjónvarpsstöðinni SkjáEinum, þátturinn Málið, þar sem fjallað yrði um starfsemi stefnenda að Dalsmynni. Í fréttinni var vitnað til ummæla stefnda um stefnendur, en auk þess fylgdi henni myndbrot úr þættinum með viðtali við stefnda. Ummæli stefnda tilgreind í kröfuliðum 1. a) og b) voru látin falla í nefndum sjónvarpsþætti og voru þau birt á vefsíðunni dv.is samkvæmt áðursögðu.

Degi síðar birti stefndi sjálfur grein á bloggsíðu sinni á vefsíðunni dv.is, http://www.dv.is/blogg/arni-stefan/, þar sem hann fjallaði um stefnendur og starfsemina að Dalsmynni. Fyrirsögn greinarinnar var „Dýraníð að Dalsmynni“. Ummæli stefnda tilgreind í kröfuliðum 1. c) til h) er að finna í þessari grein stefnda.

Stefnendur voru afar ósáttir við ummæli stefnda og með bréfi 18. nóvember 2013 buðu stefnendur honum „… að ná sátt í málinu með afsökunarbeiðni og greiðslu hóflegra miskabóta að upphæð 1.000.000 kr.“. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi svarað því boði. Höfðuðu stefnendur því mál þetta gegn stefnda 21. janúar 2014 samkvæmt áðursögðu.

II

Um aðild sína að málinu vísa stefnendur til þess að stefnandi Ásta sé eigandi og forstöðukona stefnanda Hundaræktarinnar ehf. Umfjöllun stefnda, bæði á vefsíðunni dv.is 8. október 2013 og í grein hans 9. sama mánaðar, hafi varðað báða stefnendur. Umfjöllunin um stefnendur hafi verið samofin og hafi hinum ærumeiðandi ásökunum verið beint að báðum stefnendum. Stefndi hafi fjallað um þá í sömu andrá og sakað báða um lögbrot og dýraníð í starfseminni að Dalsmynni. Um samlagsaðild stefnenda vísist til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda eigi dómkröfur þeirra samkvæmt framansögðu rót sína að rekja til sama atviks og sömu aðstöðu.

Stefnendur segja stefnda hafa látið ummæli þau sem vísað sé til í kröfuliðum 1. a) og 1. b) falla í sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni Skjá-einum 8. október 2013. Ummælin hafi síðan verið tekin upp í frétt sem birt hafi verið á vefsíðunni dv.is þann sama dag. Um ábyrgð stefnda á hinum ærumeiðandi ummælum í sjónvarpsþættinum vísi stefnendur til a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Hvað varði birtingu sömu ummæla á vefsíðunni dv.is vísi stefnendur til a-liðar 1. mgr. 51. gr. sömu laga.

Ummæli, sem vísað sé til í kröfuliðum 1. c) til 1. h), hafi stefndi ritað í eigin nafni á bloggsíðu sína á vefsíðunni dv.is. Bloggsíðan sé skýrlega merkt stefnda í titli, í vefslóð (dv.is/blogg/arni-stefan) og með mynd af stefnda. Um ábyrgð stefnda á ummælum 1. c) til 1. h) vísi stefnendur því til a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011. Um ábyrgð stefnda á öllum hinum ærumeiðandi ummælum sé af hálfu stefnanda jafnframt vísað til almennra reglna skaðabótaréttar um ábyrgð á skaðaverkum.

Stefnendur segja umfjöllun stefnda hafa verið ærumeiðandi. Ummæli stefnda hafi verið til þess fallin að valda stefnendum álitshnekki og falið í sér brot á ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ummæli 1. a), „Þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað“, hafi birst í fyrirsögn fréttar á dv.is 8. október 2013. Þau séu tilvitnun í lengri ummæli stefnda um stefnendur, sbr. ummæli 1. b): „Alveg örugglega. Ég hef verið sannfærður í langan tíma um að þarna sé verið að brjóta nokkur ákvæði dýraverndarlaga. Ef ég væri í stöðu til að vera héraðsdýralæknir og með þá reynslu sem ég hef að dýrahaldi, þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað.“

Ofangreind ummæli hafi stefndi látið falla í sjónvarpsþætti 8. október 2013. Þau hafi síðan verið tekin upp í frétt sem birst hafi á vefsíðunni dv.is þann sama dag. Með ummælunum hafi stefndi verið að svara eftirfarandi spurningu þáttarstjórnandans: „Er verið að brjóta dýraverndunarlög á Dalsmynni að þínu mati?“ Í svari stefnda hafi komið fram fullyrðing hans um að stefnendur hefðu brotið dýraverndarlög í starfsemi sinni á hundaræktarbúinu að Dalsmynni. Stefndi hafi síðan gengið enn lengra með þeim orðum sínum að hann væri búinn að loka starfseminni fyrir löngu, væri hann til þess bær. Með þeim orðum hafi stefndi í raun átt við að þar til bær stjórnvöld ættu með réttu að stöðva starfsemi stefnenda.

Stefnendur vísa til þess að lög nr. 15/1994 um dýravernd, sem í gildi hafi verið er atvik máls gerðust, hafi meðal annars kveðið á um að skylt væri að fara vel með dýr, óheimilt væri að hrekkja þau og meiða, að sjá bæri dýrum fyrir viðunandi vistarverum og fóðri og að koma skyldi í veg fyrir vanlíðan þeirra. Jafnframt hafi í lögunum verið gert ráð fyrir ströngu leyfisveitingakerfi vegna ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamninga, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni.

Auk þeirra krafna sem gerðar hafi verið í lögum, bæði í eldri dýraverndarlögum og lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, er leyst hafi fyrrnefndu lögin af hólmi, séu í samfélaginu almennt gerðar miklar kröfur til þeirra sem fari með umhirðu og ræktun dýra. Óhætt sé að fullyrða að ill meðferð á dýrum og svokallað dýraníð sé almennt fyrirlitið. Fullyrðing um að einstaklingur eða fyrirtæki hafi brotið dýraverndarlög er því augljóslega alvarleg, ekki síst þegar hún beinist að rekstraraðila sem hefur atvinnu af ræktun dýra.

Stefnendur segja starfsemina að Dalsmynni að öllu leyti vera í samræmi við lög. Fullyrðingar stefnda um annað séu ósannar. Með því að fullyrða að stefnendur hafi brotið ákvæði dýraverndarlaga hafi stefndi því vegið með alvarlegum hætti að æru og starfsheiðri stefnenda og þannig brotið gegn 234. gr. almennra hegningarlaga. Með hinni ósönnu fullyrðingu um brot stefnenda hafi stefndi jafnframt dróttað að þeim nokkru sem til þess hafi verið fallið að verða virðingu þeirra til mikils hnekkis. Stefndi hafi því einnig brotið gegn 235. gr. almennra hegningarlaga.

Framangreindar ærumeiðingar og aðdróttanir stefnda segja stefnendur vera sérstaklega alvarlegar þar sem hann fullyrði í reynd að þar til bær stjórnvöld ættu að loka fyrir starfsemi stefnenda. Það gefi til kynna að stefndi saki stefnendur um mjög alvarleg lögbrot. Jafnframt sé ljóst að ummæli stefnda vegi sérstaklega þungt þar sem hann kynni sig og komi fram sem lögfræðingur með dýrarétt sem sérsvið, eða dýraverndar­lögfræðingur. Það ljái ummælum hans trúverðugleika í augum almennings. Af þeim sökum séu ærumeiðingar og aðdróttanir hans enn alvarlegri en ef þær kæmu frá leikmanni.

Ummæli 1. c), „Dýraníð að Dalsmynni“, hafi stefndi ritað í fyrirsögn greinar á bloggsíðu sinni 9. október 2013. Í fyrirsögninni fullyrði stefndi að dýraníð fari fram í starfsemi stefnenda að Dalsmynni.

Stefnendur segja að með orðinu „dýraníð“ sé samkvæmt almennum málskilningi ekki aðeins átt við slæma meðferð á dýrum. Orðið vísi til alvarlegri háttsemi en það og merki í reynd ofbeldi, þ.m.t. kynferðislegt ofbeldi, og aðra verulega fyrirlitlega meðferð á dýrum. Megi halda því fram að um efsta stig ofbeldis gegn dýrum sé að ræða. Með fyrirsögninni einni og sér hafi stefndi því gefið til kynna að stefnendur stunduðu alvarlegt ofbeldi eða aðra verulega fyrirlitlega meðferð á dýrum. Tilvitnuð fullyrðing stefnda hvað þetta varðar sé ósönn. Eðli málsins samkvæmt hafi tilvitnuð orð stefnda verið til þess fallin að meiða æru þeirra sem fyrir þeim hafi orðið og verða virðingu þeirra til mikils hnekkis, ekki síst í ljósi þess að um sé að ræða aðila sem hafi hundaræktun að atvinnu. Með ummælum sínum hafi stefndi því brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

Ummæli 1. d): „Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðar [sic] allt að tveggja ára fangelsi.“ Þarna fullyrði stefndi að stefnandi Ásta hafi „augljóslega“ framið refsivert brot á dýraverndarlögum. Í þessum orðum felist jafnframt fullyrðing þess efnis að stefnandi Hundaræktin ehf. hafi framið brot á nefndum lögum, enda sé stefnandi Ásta í senn eigandi og starfsmaður stefnanda Hundaræktarinnar ehf.

Þegar hafi verið gerð grein fyrir því hversu alvarleg og ærumeiðandi aðdróttun það sé að fullyrða að einhver hafi gerst brotlegur við dýraverndarlög. Þau ummæli stefnda sem vísað sé til í kröfulið 1. d) séu þó jafnvel enn alvarlegri þar sem stefndi fullyrði að stefnandi Ásta geti átt yfir höfði sér tveggja ára fangelsi. Með þeim orðum sínum hafi stefndi í reynd verið að segja að stefnandi Ásta hafi framið stórfelld eða ítrekuð brot á lögum nr. 15/1994 um dýravernd, þar sem tveggja ára refsing eigi aðeins við um stórfelld eða ítrekuð brot, sbr. ákvæði 1. mgr. 19. gr. laganna. Fullyrðing stefnda um stórfelld, ítrekuð og refsiverð brot stefnenda sé ósönn. Ummælin séu ærumeiðandi fyrir báða stefnendur. Stefndi hafi því með þeim brotið gegn 234. gr. almennra hegningarlaga. Með þeim hafi stefndi jafnframt dróttað að stefnendum nokkru sem til þess sé fallið að verða virðingu þeirra til mikils hnekkis. Stefndi hafi því einnig brotið gegn 235. gr. almennra hegningarlaga.

Með ummælum 1. e), „Gæsalappir eru hér notaðar því ég tel að starfsemin eigi ekkert skylt við ræktun.“, hafi stefndi fullyrt með niðrandi hætti að hundaræktun stefnenda eigi ekkert skylt við ræktun. Af samhengi greinar stefnda sé ljóst að með þessu eigi hann við að stefnendur stundi ekki hundarækt heldur stundi þeir refsiverð brot, illa meðferð á dýrum og dýraníð.

Samkvæmt áðursögðu séu miklar kröfur gerðar til þeirra sem hafi meðferð og ræktun dýra á sinni könnu. Ummæli þau sem kröfuliður 1. e) taki til, sem skoða verði í samhengi við fyrirsögn greinarinnar og greinina í heild, séu því meiðandi fyrir stefnendur og til þess fallin að verða virðingu þeirra til mikils hnekkis. Með ummælunum telji stefnendur stefnda því hafa brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

Ummæli 1. f), „Að Dalsmynni fer fram framleiðsla á dýrum við bágborin skilyrði“, séu eðlislík ummælum þeim sem kröfuliður 1. e) taki til og beri að skoða þau í samhengi við fyrirsögn greinarinnar og greinina í heild. Með ummælunum fullyrði stefndi að stefnendur stundi framleiðslu á dýrum við bágborin skilyrði. Með því gefi stefndi annars vegar í skyn að stefnendur stundi ekki ræktun dýra, heldur einhvers konar framleiðslu sem eigi meira skylt við verksmiðjuiðnað, og hins vegar að aðstæður hjá stefnendum sé bágbornar. Af samhengi greinarinnar sé ljóst að með því eigi stefndi við að stefnendur fari illa með dýr, stundi dýraníð og brjóti gegn dýraverndarlögum, sbr. það sem fyrr var rakið. Þessi ummæli stefnda séu ósönn. Ummælin séu ærumeiðandi og til þess fallin að verða virðingu stefnenda til hnekkis. Með þeim hafi stefndi því brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

Ummæli 1. g): „Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“ Á undan þessum ummælum stefnda segi í grein hans: „Það vakti undrun mína að Ásta vildi ekki leyfa myndatökur innandyra. Stoltur ræktandi sýnir viðskiptavinum sínum að sjálfsögðu þá aðstöðu, sem hann býður hundum sínum upp á.“ Af fyrirsögn og samhengi greinar stefnda sé ljóst að með því að fullyrða að stefnandi Ásta hafi eitthvað að fela eigi stefndi við að hjá stefnendum fari fram starfsemi sem varði við dýraverndarlög, þ.e. sé dýraníð, og megi því ekki líta dagsins ljós eða vera kvikmynduð af heimildarmyndagerðarmönnum. Með því að fullyrða að stefnendur viðhafi þá fyrirlitlegu háttsemi, sem að framan sé lýst, og hafi því eitthvað að fela, hafi stefndi meitt æru stefnenda og dróttað að þeim nokkru sem sé til þess fallið að verða virðingu þeirra til hnekkis. Með ofangreindum ummælum hafi stefndi því brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

Með ummælum 1. h), „Réttilega verður starfsemin að Kjalarnesi aðeins nefnd einu nafni, hvolpaframleiðsla“, hafi stefndi fullyrt enn á ný að stefnendur stundi ekki hundarækt, heldur einhvers konar verksmiðjuframleiðslu og dýraníð. Ummælin séu eðlislík ummælum 1. e) og 1. f) og vísa stefnendur hvað þau varðar til umfjöllunar sinnar hér að framan. Samkvæmt framansögðu hafi stefndi því með ummælum sínum, sem tekin séu upp í kröfulið 1. h), brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

Almennt segja stefnendur ummæli og greinarskrif stefnda hafa falið í sér alvarlegar og óviðurkvæmilegar aðdróttanir og ærumeiðingar um að stefnendur stundi dýraníð, brjóti dýraverndarlög og hafi hluti að fela, svo fátt eitt sé nefnt. Ekki sé um gildisdóma að ræða heldur staðhæfingar stefnda um staðreyndir, svo sem að stefnendur hafi gerst brotlegir við lög með því að stunda dýraníð. Ummæli stefnda í umræddum sjónvarpsþætti og títtnefndri grein hafi verið sett fram til heimilda- og upplýsingagildis fyrir almenning. Ummælin séu hins vegar öll ósönn og hljóti að hafa verið sett fram gegn betri vitund stefnda. Þau séu sérstaklega alvarleg í ljósi þess að stefndi kynni sig ýmist sem dýraverndarlögfræðing eða lögfræðing með dýrarétt sem sérsvið. Orð hans á þessu sviði hafi því enn meiri þunga og virki sem sannindi fyrir þá sem heyri og lesi. Halda stefnendur því fram að jafnvel þótt fallist væri á að um gildisdóma væri að ræða, sé ljóst að ummælin hafi engu að síður verið ærumeiðandi, enda hafi þau verið óþarflega móðgandi og meiðandi.

Stefnendur segja umfjöllun stefnda hafa verið ósanna og beinlínis ranga um atriði sem gætu varðað stefnanda Ástu fangelsisrefsingu ef sönn væru. Ummæli stefnda hafi verið óviðurkvæmileg og varði við 234. og 235. gr. almennra hegningar­laga samkvæmt áðursögðu. Því krefjist stefnendur ómerkingar þeirra skv. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Stefnendur þurfi ekki að þola það að vera sakaðir um dýraníð og alvarleg lögbrot í áberandi umfjöllun í sjónvarpi og á víðlesnum vefmiðli. Stefndi hafi með umfjöllun sinni farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og um leið brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnenda sem verndað sé af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Gera verði þá kröfu til lögfræðinga, eins og annarra sérfræðinga, að þeir byggi umfjöllun um mál á sínu sérsviði á vandaðri könnun á staðreyndum. Það hafi stefndi ekki gert heldur hafi hann kosið að viðhafa ummæli og rita grein þar sem ósönnum og grófum fullyrðingum hafi verið slegið fram um stefnendur. Stefndi hafi ekki borið umræddar fullyrðingar undir stefnendur, sem þó hefði verið fullt tilefni til miðað við alvarleika þeirra ásakana er stefndi hafi sett fram. Stefndi geti því ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi hinna umdeildu ummæla sinna.

Stefnandi Ásta byggir á því að ummæli stefnda hafi verið ólögmæt meingerð gegn persónu hennar. Stefndi beri því miskabótaábyrgð vegna ummæla sinna á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ummæli stefnda hafi fengið mjög andlega á stefnanda Ástu þar sem um grófar, ærumeiðandi og ósannar aðdróttanir hafi verið að ræða. Æra stefnanda Ástu og virðing hafi beðið hnekki við ummælin, enda hafi með þeim verið ráðist á persónu hennar. Um alvarleika ummælanna vísist að öðru leyti til framangreindrar umfjöllunar. Við mat á miskabótum stefnandanum til handa verði einnig að hafa í huga að ummæli stefnda hafi verið sett fram í sjónvarpsþætti sem ætlað hafi verið að hafa heimildar- og upplýsingagildi fyrir almenning. Þátturinn hafi komið fyrir sjónir þúsunda manna, sbr. þá staðreynd að myndbrot með ummælum stefnda hafi verið skoðað meira en 9000 sinnum á vefmiðlinum youtube.com. Þá sé vefsíðan dv.is víðlesin. Umfjöllun stefnda hafi því komið rækilega fyrir sjónir almennings.

Við mat á miskabótum vísar stefnandi Ásta að auki til grunnraka að baki 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, sem og grunnraka stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 71. gr. laga nr. 33/1944, en í tilvitnuðu ákvæði segi að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Enn fremur verði að líta til þeirra neikvæðu áhrifa sem umfjöllun stefnda hafi haft á starfsemi stefnenda. Starfsemi eins og sú sem stefnendur reki þurfi að njóta trausts í samfélagi þar sem dýraníð sé eðlilega fyrirlitið. Með ummælum sínum hafi stefndi vegið harkalega að því trausti. Við ákvörðun miskabótanna verði enn fremur að hafa í huga að þær þurfi að fela í sér varnaðaráhrif gegn frekari brotum af hálfu stefnda. Krafa stefnanda Ástu, að fjárhæð 2.000.000 króna, sé því síst of há í ljósi allra atvika málsins.

Kröfur um birtingu dóms segjast stefnendur byggja á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Í ákvæðinu sé kveðið á um að dæma megi þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun til þess að greiða þeim sem misgert var við hæfilega fjárhæð til þess að kosta birtingu dóms í opinberu blaði eða riti, einu eða fleiri. Í ljósi þess að um alvarleg meiðyrði og aðdróttanir hafi verið að ræða sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn rækilega. Því sé krafist kostnaðar við birtingu í einu dagblaði, en miðað sé við ódýrustu heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu samkvæmt framlagðri verðskrá.

Hvað málskostnaðarkröfu varðar tekur stefnandi Ásta sérstaklega fram að hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og henni beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.

Til stuðnings kröfum sínum vísa stefnendur til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, aðallega XXV. kafla laganna um ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífs, sérstaklega 234., 235. og 241. gr. Stefnendur vísa jafnframt til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enn fremur til ákvæða laga um fjölmiðla nr. 38/2011, einkum 50. og 51. gr. laganna. Um aðild sína að málinu vísa stefnendur til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað miskabætur varðar vísar stefnandi Ásta til almennra reglna skaðabótaréttar og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

III

Stefndi segir þess ekki getið í stefnu hvor stefnenda það sé sem krefjist miskabóta. Í 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu gerðar ákveðnar kröfur til skýrleika krafna og auðkennis stefnanda. Í því felist að hver og einn stefnandi, þegar stefnendur séu fleiri en einn, verði að tilgreina kröfur sínar með nægjanlega skýrum hætti. Þessa sé ekki gætt í stefnu málsins. Stefndi fái því ekki annað séð en vísa beri miskabótaþætti málsins frá dómi án kröfu.

Stefndi kveður rekstur hundabúsins að Dalsmynni oft hafa sætt gagnrýni. Í ljósi þess hafi Sölvi Tryggvason sjónvarpsþáttaframleiðandi óskað eftir því við stefnda að hann kæmi fram í sjónvarpsþættinum Málið, sem sýndur hafi verið á sjónvarpsstöðinni Skjá-einum, og svaraði spurningum um lögfræðileg álitaefni tengd hundaræktun. Sumar spurningar Sölva hafi tengst áralangri umræðu um aðbúnað hunda, sem framleiddir eru á hundabúinu að Dalsmynni.

Netmiðillinn dv.is hafi birt frétt um þáttinn þar sem vísað hafi verið í ummæli stefnda að honum forspurðum. Eftir útsendingu þáttarins hafi stefndi skrifað almenna grein á bloggsvæði sitt, http://www.dv.is/blogg/arni-stefan/, um þær réttarheimildir sem starfsemin að Dalsmynni byggist á, um ábyrgð rekstraraðilanna og ábyrgðarsvið þeirra, og á hvaða hátt stefndi teldi að reglugerð, sem hundabú væru rekin samkvæmt, samrýmdist ekki dýraverndarlögum. Þær skoðanir sem stefndi hafi sett fram í greininni hafi hann byggt á eigin niðurstöðum fengnum eftir samtöl við eigendur hunda, svo sem aðila innan Hundaræktarfélags Íslands og stjórnendur þess félags, sem og fyrrverandi viðskiptavini Hundaræktarinnar ehf. og stjórnanda einkahlutafélagsins. Skoðanir sínar hafi stefndi sett fram með rökstuddum hætti og hafi stefndi notað orðfæri þar sem áherslan hafi verið á að um eigin skoðanir hans væri að ræða. Heldur stefndi því fram að þegar litið sé til viðtalsins og þáttarins í heild, þ.m.t. þess sem fram komi hjá öðrum viðmælendum, megi þar finna stoð fyrir skoðunum stefnda, sem hafi sérhæft sig í lögfræði á sviði dýraverndar.

Af hálfu stefnda er til þess vísað að dv.is hafi birt umrædda frétt á eigin forsendum og án alls samráðs við stefnda. Stefndi sé ekki stjórnandi dv.is og hafi hann ekki getað komið að neinum athugasemdum við fréttaflutning vefsins. Stefndi fái því ekki séð hvernig hann geti borið ábyrgð á fréttaflutningi vefsins. Við blasi að stefna hefði átt dv.is í málinu en ekki stefnda.

Stefndi nefnir og að ekki verði annað ráðið af orðum stefnanda Ástu en hún viðurkenni í fyrrnefndum sjónvarpsþætti slæmt ástand varðandi dýrin og aðbúnað þeirra, sbr. þau orð hennar að henni þyki leitt ef „… þetta sé svona.“ Þá kveður stefndi einkar athyglisverð þau orð Ástu að „… þegar svona poppar upp í fjölmiðlum þá hef ég selt og selt, þetta er mjög góð auglýsing, það er alveg hreina satt.“ Að áliti stefnda sé ekki hægt að túlka þessi orð stefnandans öðruvísi en svo að slæm umfjöllun sé að hennar mati góð auglýsing fyrir hundaræktunina.

Stefndi kveður innihald þáttarins tala sínu máli og vera því til staðfestu að stefnda hafi verið rétt að segja skoðun sína, sem lögfróður aðili, um ástandið eins og hann hafi lýst því á bloggsíðu sinni.

Kröfu sína um sýknu af kröfuliðum 1. a) og 1. c) til h) kveðst stefndi styðja þeim rökum að um persónulega skoðun stefnda sé að ræða og að réttur hans til skoðana sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, enda hafi skoðanir stefnda samkvæmt áðursögðu allar verið rökstuddar. Auk þess hafi stefndi hvorki staðið að birtingu ummælanna á vefsíðunni dv.is, né haft nokkuð um birtingu þeirra að segja. Stefndi eigi því ekki aðild að málinu.

Kröfu sína um sýknu af kröfulið 1. b) kveðst stefndi byggja á því að um persónulega skoðun hans sé að ræða. Réttur stefnda til skoðana sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, enda hafi skoðanir hans allar verið rökstuddar samkvæmt framangreindu.

Kröfu um sýknu af miskabótakröfu segir stefndi studda meginreglum skaðabótaréttar. Sönnunarbyrðin fyrir því að stefnandinn hafi orðið fyrir miska hvíli á honum sjálfum, en ósannað sé með öllu að ummæli stefnda hafi valdið stefnendum miska. Varakröfu um lækkun miskabóta reisir stefndi á sömu rökum og sýknukröfuna. Segir hann hið meinta ófjárhagslega tjón stefnandans með öllu óljóst og ósannað.

Kröfu um sýknu af þeirri kröfu stefnenda að stefnda verði gert að kosta birtingu dóms í málinu í einu dagblaði kveðst stefndi byggja á því að hann hafi ekki staðið að birtingu umræddra ummæla á vefsíðunni dv.is eða öðrum fréttamiðlum. Varakröfu um birtingu dóms á bloggsíðu sinni, http://www.dv.is/blogg/arni-stefan/, byggir stefndi á þeim rökum að þar hafi hann birt skoðanir sínar á rekstri stefnenda.

IV

Mál þetta hafa stefnendur höfðað gegn stefnda með heimild í 3. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í stefnu koma skýrlega fram dómkröfur hvors stefnenda um sig og eru þær raktar í upphafi dómsins. Kröfur stefnenda eru samhljóða að öðru leyti en því að einungis stefnandi Ásta krefst miskabóta úr hendi stefnda. Miskabótakrafan er að fjárhæð 2.000.000 króna, auk þess sem krafist er vaxta og dráttarvaxta af þeirri fjárhæð, svo sem nánar greinir í stefnu. Athugasemd stefnda í greinargerð um meintan óskýrleika varðandi það hvor stefnenda hafi uppi miskabótakröfu í málinu er því með öllu haldlaus.

Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður stefnenda því að sú málsástæða stefnda, að honum hefði verið heimilt að láta hin umdeildu ummæli falla þar sem um gildisdóma hefði verið að ræða, kæmist að í málinu. Sagði lögmaðurinn um nýja málsástæðu að ræða sem ekki kæmi fram í greinargerð stefnda og væri hún því of seint fram komin. Þessu mótmælti lögmaður stefnda og vísaði til þess að efnislega kæmi málsástæðan skýrlega fram í greinargerð stefnda í málinu.

Hugtakið gildisdómur hefur almennt verið skýrt svo að með því sé átt við huglægt mat á staðreynd. Með öðrum orðum sé átt við skoðun manns, hvað honum finnst um eitthvað. Rétt er hjá lögmanni stefnenda að orðið „gildisdómur“ er hvergi að finna í greinargerð stefnda. Til þess verður hins vegar að líta að varnir stefnda í greinargerð byggja að meginstefnu til einmitt á því, efnislega og samkvæmt orðanna hljóðan, að í ummælum stefnda hafi falist persónulegar skoðanir hans. Ber dómnum því að taka efnislega afstöðu til umræddrar málsástæðu.

Um ábyrgð stefnda á ummælum þeim sem kröfuliðir 1. a) og 1. b) taka til hafa stefnendur réttilega vísað til a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 þar sem stefndi lét ummælin falla í sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni SkjáEinum 8. október 2013. Hins vegar verður ekki talið að vísun stefnenda til a-liðar 1. mgr. 51. gr. sömu laga geti með réttu átt við í málinu, vegna birtingar ummælanna á vefsíðunni dv.is þann sama dag, enda ósannað að stefndi hafi samþykkt að ummælunum yrði miðlað á síðunni.

Svo sem málið liggur fyrir dómnum verður ekki annað ráðið en ummæli þau sem kröfuliðir 1. c) til 1. h) taka til hafi stefndi ritað í eigin nafni á bloggsíðu sína. Bloggsíðan er skýrlega merkt stefnda í titli, í vefslóð (dv.is/blogg/arni-stefan), og með mynd af stefnda. Stefndi ber því ábyrgð á ummælunum samkvæmt ákvæði fyrrnefnds a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011.

Fyrir liggur að stefnandi Ásta er eigandi og forstöðukona stefnanda Hundaræktarinnar ehf. Að því gættu og að virtum ummælum stefnda, bæði í sjónvarpsþættinum og í grein hans 9. mars 2013, telur dómurinn ljóst að ummæli stefnda hafi beinst að og varðað báða stefnendur.

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sbr. einnig 1. mgr. 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Hugtakið friðhelgi einkalífs hefur verið skýrt þannig að í því felist réttur til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti og einkalíf.

Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Má ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi aldrei í lög leiða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. 73. gr.

Svo sem að framan er rakið er tjáningarfrelsið grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnarskránni. Takmarkanir á tjáningarfrelsinu verða af þeim sökum að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, og stefnendur hafa vísað til kröfum sínum til stuðnings, verður að skýra með tilliti til þessara sjónarmiða.

Við úrlausn málsins verður til þess að líta að stefndi er lögfræðingur að mennt, með dýrarétt sem sérsvið. Bar meistararitgerð stefnda yfirskriftina „HIN LEYNDA ÞJÁNING BÚFJÁR Á ÍSLANDI-um réttaráhrif og framkvæmd dýraverndarlaga-“ Á bloggsíðu stefnda, http://www.dv.is/blogg/arni-stefan/, sbr. framlagða útprentun af hinni umdeildu grein hans, er stefndi sagður láta sig dýra-, náttúru og mannréttindi varða í leik og starfi. Þessu samræmist framlagt erindi sem stefndi ritaði til umhverfisráðherra 22. maí 2012, ásamt Dagnýju Björk Hreinsdóttur, þar sem skorað var á ráðherra að breyta ákvæðum reglugerðar nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, sem heimilar rekstur hundabúa á Íslandi. Á tilvitnaðri bloggsíðu stefnda kemur og fram að hann sé sendiherra á Íslandi fyrir alheimsdýra­verndarsamtökin World Animal Day og þá reki hann og ritstýri vefnum www.dyraverndarinn.is. Af öllu þessu má ljóst vera að stefndi hefur látið velferð dýra sig miklu skipta.

Verður nú vikið að hinum umdeildu ummælum stefnda:

Ummæli samkvæmt kröfulið 1. b): „Alveg örugglega. Ég hef verið sannfærður í langan tíma um að þarna sé verið að brjóta nokkur ákvæði dýraverndarlaga. Ef ég væri í stöðu til að vera héraðsdýralæknir og með þá reynslu sem ég hef af dýrahaldi, þá væri ég löngu búinn að loka þessum stað“, lét stefndi falla í sjónvarpsþætti sem sýndur var á SkjáEinum 8. október 2013. Svo sem áður var rakið ber stefndi hvorki ábyrgð á fyrirsögn fréttar dv.is né heldur birtingu ummæla hans í fréttinni þar sem ósannað er stefndi hafi samþykkt að ummælum hans yrði miðlað á vefsíðunni. Þá eru ummæli 1. a) hluti ummæla 1. b) og að fenginni framangreindri niðurstöðu standa rök ekki til þess að fjalla sérstaklega um þau ummæli. Verður því eingöngu fjallað um ummælin í heild, sbr. kröfulið 1. b).

Í ummælum stefnda samkvæmt kröfulið 1. b) felst það álit stefnda að lög hafi verið brotin í starfsemi stefnenda og því beri að áliti stefnda að stöðva starfsemina. Í þessum ummælum felast að mati dómsins ekki fullyrðingar um staðreyndir heldur álit stefnda, niðurstaða hans sem lögfræðings og áhugamanns um velferð dýra, er hann byggði á ýmsum staðreyndum um rekstur stefnenda, sbr. framlagðar fréttir á vefmiðlum, sem efnislega hefur ekki verið mótmælt af stefnendum, samtölum sínum við fólk tengt hundarækt, sbr. framburð vitna fyrir dómi, og túlkun á lögum og reglugerðum um dýravernd og dýrahald. Þar sem um gildisdóma er að ræða en ekki fullyrðingar um staðreyndir verður ekki gerð sú krafa til stefnda að hann færi á sönnur á sannleiksgildi ummæla sinna. Verður því ekki talið í ljós leitt að stefndi hafi með ummælunum brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Verður hann samkvæmt því sýknaður af ómerkingarkröfu stefnenda samkvæmt kröfuliðum 1. a) og b).

Ummæli stefnda samkvæmt kröfulið 1. c), „Dýraníð að Dalsmynni“, voru fyrirsögn greinar sem stefndi birti á bloggsíðu sinni 9. október 2013. Fyrirsögnin verður ekki skilin öðruvísi en svo að í henni felist fullyrðing stefnda um að dýraníð fari fram í starfsemi stefnenda að Dalsmynni.

Samkvæmt almennum málskilningi felst í orðinu dýraníð ill meðferð á dýrum, það að færa sér dýr óvægilega í nyt, sbr. orðabók Menningarsjóðs. Vísar orðið því til verulega fyrirlitlegrar meðferðar á dýrum. Umrædd fyrirsögn á grein stefnda gaf því til kynna að stefnendur beittu dýr alvarlegu ofbeldi eða viðhefðu aðra verulega fyrirlitlega meðferð á dýrum. Stefndi hefur engin haldbær gögn fært fram til sönnunar þessari fullyrðingu sinni og telst hún því ósönnuð. Tilvitnuð ummæli stefnda voru til þess fallin að meiða æru stefnanda Ástu og með þeim dróttaði hann jafnframt að stefnendum báðum nokkru sem til þess var fallið að verða virðingu þeirra til hnekkis. Með ummælunum braut stefndi því gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Verða hin óviðurkvæmilegu ummæli dæmd ómerk að kröfu stefnenda, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Ummæli stefnda samkvæmt kröfulið 1. d): „Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðar [sic] allt að tveggja ára fangelsi.“ ganga allnokkuð lengra en áðurgreind ummæli hans samkvæmt kröfulið 1. b). Í þessu tilviki fullyrðir stefndi að stefnandi Ásta hafi augljóslega framið refsivert brot á dýraverndarlögum. Verður á það fallist með stefnendum að í tilvitnuðum orðum felist jafnframt fullyrðing um lögbrot stefnanda Hundaræktarinnar ehf., enda stefnandi Ásta eigandi og starfsmaður stefnanda Hundaræktarinnar ehf. samkvæmt áðursögðu.

Fullyrðing stefnda um refsiverð lögbrot er alvarleg ásökun. Stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni. Ekkert liggur fyrir um að stefnendur hafi sætt ákæru vegna lögbrota, hvað þá að þeir hafi verið sakfelldir fyrir lögbrot. Þá er óumdeilt í málinu að stefnandi Hundaræktin ehf. hefur öll tilskilin leyfi frá yfirvöldum fyrir starfsemi sinni. Fullyrðing stefnda um refsiverð lögbrot er því ósönnuð. Telja verður að með hinni ósönnuðu fullyrðingu hafi stefndi vegið að æru stefnanda Ástu og þannig brotið gegn 234. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt hafi hann dróttað að stefnendum báðum nokkru sem til þess hafi verið fallið að verða virðingu þeirra til hnekkis. Með ummælunum braut stefndi því einnig gegn 235. gr. almennra hegningarlaga. Verða hin óviðurkvæmilegu ummæli dæmd ómerk að kröfu stefnenda, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Ummæli samkvæmt kröfulið 1. e): „Gæsalappir eru hér notaðar því ég tel að starfsemin eigi ekkert skylt við ræktun“, kröfulið 1. f), „Að Dalsmynni fer fram framleiðsla á dýrum við bágborin skilyrði“, og kröfulið 1. h), „Réttilega verður starfsemin að Kjalarnesi aðeins nefnd einu nafni, hvolpaframleiðsla“ eru eðlislík að mati dómsins. Ummælin eru öll gildishlaðin og lýsa afar eindregnum skoðunum stefnda á starfsemi Hundaræktarinnar ehf. Að virtu efni greinar stefnda í heild og framlögðum gögnum, sbr. sérstaklega áðurnefnt erindi stefnda til umhverfisráðherra, er það mat dómsins að í umræddum gildisdómum stefnda felist andúð og fordæming hans á umfangsmikilli ræktun hunda í atvinnuskyni. Þar sem um gildisdóma er að ræða en ekki fullyrðingar um staðreyndir verða ekki gerðar þær kröfur til stefnda að hann færi á sönnur á sannleiksgildi ummælanna. Að því sögðu þykir því ekki verða slegið föstu að stefndi hafi með ummælunum brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Var honum því heimilt, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, að viðhafa ummælin og birta þau á bloggsíðu sinni. Samkvæmt því verður stefndi sýknaður af ómerkingarkröfu stefnenda samkvæmt kröfuliðum 1. e), f) og h).

Ummæli stefnda samkvæmt kröfulið 1. g): „Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela“, koma í grein stefnda í kjölfar umfjöllunar hans um að stefnandi Ásta hafi ekki viljað leyfa myndatökur innandyra að Dalsmynni. Til þess verður að líta að stefnendum bar engin skylda til þess að leyfa myndatökur á hundabúinu. Í tilvitnuðum ummælum felst fullyrðing stefnda um að stefnandi Ásta hafi eitthvað að fela í rekstri stefnenda. Þá verður af samhengi greinar stefnda að telja ljóst að í umræddum ummælum felist fullyrðing stefnda um að eitthvað í rekstri stefnenda þoli ekki dagsins ljós. Þessa fullyrðingu hefur stefndi engum haldbærum gögnum stutt. Þykja ummæli stefnda vera ærumeiðandi í garð stefnanda Ástu, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt verður talið að með þeim hafi stefndi dróttað að stefnendum báðum nokkru sem er til þess fallið að verða virðingu þeirra til hnekkis, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga. Verða hin óviðurkvæmilegu ummæli dæmd ómerk að kröfu stefnenda, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Stefnandinn Ásta krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni 2.000.000 króna í miskabætur, auk nánar tilgreindra vaxta og dráttarvaxta. Kröfuna byggir hún á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalagalaga nr. 50/1993.

Í hinum ómerktu ummælum stefnda samkvæmt framansögðu fólst ólögmæt meingerð gegn æru og persónu stefnandans Ástu. Stefndi ber ábyrgð á því ófjárhagslega tjóni stefnandans sem af ummælunum leiddi samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalagalaga. Þykja miskabætur stefnandanum til handa, að öllum atvikum máls virtum, hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

Stefnendur gera kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 484.405 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, forsendna og dómsorðs, í einu dagblaði og er krafan studd ákvæði 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Til þess verður hins vegar að líta að hin ómerktu ummæli birtust eingöngu á bloggsíðu stefnda. Þykja því ekki nægjanleg efni til þess að dæma stefnda til að greiða stefnendum peningafjárhæð til að kosta birtingu dómsins í opinberu blaði heldur verður fallist á varakröfu stefnda um að honum verði gert að birta dóminn, forsendur og dómsorð, á bloggsíðu sinni.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefnda til að greiða stefnendum hluta málskostnaðar þeirra, með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar er meðal annars tekið mið af því að sami lögmaður gætti hagsmuna beggja stefnenda í málinu.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Eftirtalin ummæli skulu vera dauð og ómerk:

„Dýraníð að Dalsmynni.“

„Rekstraraðilinn Ásta Sigurðardóttir hefur augljóslega einnig gerst brotleg við dýraverndarlög með ýmsum hætti. Við brotum Ástu eins og þau blasa við mér getur refsing varðað allt að tveggja ára fangelsi.“

„Það á ekki við um Ástu sem hefur eitthvað að fela.“

Stefndi, Árni Stefán Árnason, skal sýkn af kröfum stefnenda, Ástu Sigurðardóttur og Hundaræktarinnar ehf., um ómerkingu ummæla þeirra sem í kröfuliðum 1. a), b), e), f) og h) í stefnu greinir.

Stefndi greiði stefnanda Ástu Sigurðardóttur 200.000 krónur í miskabætur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. mars 2013 til 18. desember 2013, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi skal birta dóm þennan, forsendur og dómsorð, á bloggsíðu sinni, http://www.dv.is/blogg/arni-stefan/.

Stefndi greiði hvorum stefnenda um sig 200.000 krónur í málskostnað.

Dýrin og Drottinn og falskir dýraverndarsinnar

Mætti hjá Jóhanni og Markúsi í morgunútvarpi Útvarps sögu eftir s.l. helgi

Var kallaður í viðtal vegna gæludýramessu, sem haldin var í Seltjarnarneskirkju s.l. helgi. Fékk dýrmætt tækifæri til að tala um heilagan Frans frá Assisí, verndardýrling dýra, sem uppi var stuttu eftir landnám Íslands.

Frumkvæði Seltjarnarneskirkju vakti athygli mína og sótti ég messuna. Sem kaþólikki stakk ég upp á því við biskup kaþólskra á Íslandi að sami háttur yrði hafður á hjá kaþólsku kirkjunni. Biskup Davíð B. Tencer sagði dýr ei velkomin inn í kaþólska kirkju. Vakti afstaða hans verulega undrun mína og mótmælti ég henni.

Þá sagði kaþólski biskupinn mér að árlega blessuðu kaþólskir prestar matvæli þeirra er þess óskuðu þ.á.m. kjöt. Benti ég honum á að það kjöt, sem kaþólskir prestar blessuðu væru yfirleitt kjöt af þjáðum dýrum úr verksmiðjubúskap. – Það skyldi kaþólski biskupinn ekki.
Lauk ég tilgangslausu samtali við, að mínu mati, illa upplýstan guðfræðing með því að draga andan djúpt og leggja símtólið á símann.

Í lok, að venju, skemmtilegs viðtals við útvarpsmennina tvo, var ég spurður um komu frúarinnar Jane Goodall til Íslands. Sagði að ég hefði sagt mig frá því verkefni þar sem ég teldi Jane Goodall ei sannan dýraverndarsinna. Rökstuddi og gangrýndi þá Íslendinga, sem gagnrýnislaust, styðja komu þessarar konu til landsins. Í sannleika sagt hef ég óbeit á fólki, sem titlar sig sem dýraverndarsinna en púðrar sig í óverðskuldaðri frægð einstaklinga, sem, ef vel er að gáð eru ei sannir í sinni hugsjón.

Útvarpsviðtalið má hlusta á á þessum tengli

Ljósmyndirnar hér að neðan eru frá messunni og úr stúdíói Útvarps sögu. – Neðst má lesa ræðu síra Bjarna.

Beztu kveðjur til lesenda.
Árni Stefán

IMG_3453-2

IMG_3448-2

IMG_3450-2

IMG_3462

Ræða síra Bjarna Þórs Bjarnasonar

Kæru vinir.

Gæludýrablessun hefur verið til staðar innan kristinnar kirkju lengi. Hún hefur tíðkast bæði vestan hafs og austan og einnig í Suður-Ameríku og í Afríku og víðar. Hún hefur venjulega verið að hausti, í októbermánuði, á þeim tíma þegar kristið fólk minnist heilags Frans frá Assisi. En hann er þekktur fyrir einstök tengsl sem hann átti við dýrin. Sagt er að hann hafi prédikað yfir fuglunun og dýr hefðu verið mjög hænd að honum. Til eru meira að segja helgisögur tengdar heilögum Frans. Ein er sú að hann hafi í eitt sinn komið íbúum bæjarins Gubbio til hjálpar. Vandamál bæjarbúa var stór og grimmur úlfur sem drap fjölda fólks. Heilagur Frans var fenginn til þess að leysa vandamálið. Hann er sagður hafa farið og hitt úlfinn og sannfært hann um að það væri miklu betra að bæjarbúar gæfu honum að éta reglulega í stað þess að hann væri að drepa þá. Það gekk eftir. Hann drap eftir þetta engan en kom daglega og fékk matinn sinn á ákveðinn stað í útjaðri bæjarins, eða allar götur þar til hann gaf sjálfur upp öndina einhverjum árum síðar.

Heilagur Frans var mikill dýravinur og nátturuunnandi. Hann sagði, að náttúran endurspeglaði Guð. Hann kallaði dýrin bræður sína og systur. Hann var mikill hugsjónamaður og lifði við fátækt og meinlæti.

Sú hefð skapaðist löngu síðar að kristið fólk fór að koma með gæludýrin sín í kirkjurnar á minningardegi heilags Frans og fá sérstaka blessun fyrir þau. Það sem við erum að gera í dag er því í beinu framhaldi af þessari hefð. Við erum reyndar með svona gæludýrablessun að sumri en ekki vetri enda hentar það okkur betur sem búum hér á norðurslóðum.

Svona gæludýrablessun er framkvæmd í fyrsta skipti í dag hér á Nesinu. Hún hefur verið framkvæmd tvisvar sinnum áður á Íslandi, fyrst var ég með hana í Borgarholtsskóla í Grafarvogi árið 2004 og sr. Sigríður Guðmarsdóttir var með hana fyrir nokkrum árum í Grafarholtskirkju. Það fer vel á því að vera með gæludýrablessun á Seltjarnarnesi vegna þess að Seltjarnarnes var fyrsta bæjarfélagið sem samþykkti reglur um hundahald á Íslandi. Það var árið 1974 og flutningsmaður tillögunnar er með okkur hér í dag, 42 árum síðar, Magnús Erlendsson. Kærar þakkir Magnús.

Fyrir nokkrum árum fékk ég tölvupóst. Í honum stóðu þessar setningar:

,,Ef þú getur byrjað daginn án þess að fá þér kaffi,

ef þú getur verið glaður þrátt fyrir ýmsa verki í skrokknum,

ef þú getur þolað að hlusta á kvartanir annarra daginn út og inn,

ef þú getur skilið að ástvinur þinn sé of upptekinn til þess að gefa þér tíma,

ef þú getur horft fram hjá því þegar fólk steytir skapi sínu á þér,

ef þú getur horfst í augu við lífið án allra lyga og svika,

ef þú getur borðað sama matinn dag eftir dag og ert þakklátur fyrir það,

ef þú getur sigrast á spennu án þess að taka töflur,

ef þú getur slakað á án þess að neyta alkóhóls,

ef þú getur sofið án hjálpar svefnlyfja,

ef þú getur gert allt þetta eru alveg örugglega gæludýr.

Gæludýr eru yndisleg. Gæludýraeigendur njóta margra gæða. Þeir eru yfirleitt með lægra kólesteról og lægri blóðþrýsting. Það er afleiðing þess að gæludýrið sýnir þeim skilyrðisausa ást. Rannsóknir sýna, að í New York eru þeir starfsmenn í Wall Street sem áttu hund eða kött með lægri blóðþrýsting en hinir sem áttu ekki gæludýr. Að klappa gæludýrinu í nokkrar mínútur á dag hefur mikið að segja, líka það að horfa á fiska í fiskabúri eða fugl í búri hjálpar viðkomandi að slaka á.

Ég hef lesið um hjúkrunarheimili í Bretlandi sem hefur kött í þjónustu sinni sem skynjar það ef einhver er við dauðans dyr. Hann klifrar þá upp í rúmið hjá honum og er hjá honum síðstu dagana eða klukkustundirnar sem hann lifir. Hann veitir huggun og styrk með nærveru sinni. Gæludýr á elli- og hjúkrunarheimilum hafa góð áhrif á þá sem þar dvelja. Svo vitum við um hin sérstöku tengsl á milli barna og gæludýra. Rannsóknir sýna að þau börn sem umganganst gæludýr fá síður astma. Ónæmiskerfi fjölskyldumeðlima eflist. Þegar barn hugsar um gæludýrið sitt eflir það ábyrgð þess og gagnkvæmt traust. Með því að gefa dýrinu að éta og halda því í þjálfun þá eflir það skilning barnsins á mikilvægi umhyggjunnar fyrir öðrum. Börn með námserfiðleika líður betur í kringum dýrin og á prófatíma erum börnin minna stressuð.

Gæludýrin eru blessun og gjöf frá Guði. Þau sýna okkur kærleika á allra skilyrða. Þau eru sköpuð af Guði, eða eins og við heyrðum áðan í ritningarlestrinum sem Elísabet las fyrir okkur. Þá var Guð ánægður eftir að hann hafði skapað dýrin, eða eins og segir orðrétt: ,,Og Guð sá að það var gott.“ Kærleikur Guðs er nefnilega án allra skilyrða líkt og kærleikur gæludýranna. Kærleikur Guðs er óendanlega mikill enda gaf hann okkur son sinn eingetinn, Jesú Krist. Guð gefur okkur lífið, fæði, klæði og húsaskjól. Hann gefur okkur ástvini og gæludýr sem eru hluti fjölskyldunnar. Að fá sér til dæmis hund eða kött er eins og að fá barn á heimilið, eitt barn í viðbót séu börn þegar á heimilinu. Við þurfum því að hugsa vel um gæludýrin okkar, svo að þeim líði sem best, að við sýnum þeim umhyggju og kærleika, að þau fái rétta næringu, hvíld, og þá hreyfingu sem þau þurfa. Við þökkum Guði fyrir allar gjafir hans, þökkum fyrir gæludýrin sem eru inni á heimilum okkar og umfram allt annað þann kærleika sem þau sýna okkur dag hvern. Þau hvíla í hendi Drottins eins og við öll, eitt og sérhvert okkar, eða eins og sr. Kristján Valur segir í sálminum sínum sem við sungum hér að framan:

Allt hið fagra foldarskraut

allt fólk og dýr og lönd.

Allt sem skapar góður Guð

er geymt í Drottins hönd.

Amen.

Er dýraverndargoðsögnin Goodall sönn í sér?

Þessa dagana er gert mikið úr fyrirhuguðum fyrirlestri dr. Jane Goodall á næstunni á Íslandi. Ég lét til leiðast, illa upplýstur,  að taka þátt í þessu verkefni upphaflega og ástæðan var sú, að ég tók illa ígrundaða ákvörðun vegna hvatningar frá einstaklingi, sem virkaði trúverðugur á mig vegna tengsla hans við dr. Goodall.  Aukinheldur dró ég með mér í þetta verkefni tvær áhrifamanneskjur í íslenskri dýravernd, sem ég sé nú eftir að hafa gert.

Eftir nánari athugun voru þetta semsagt misstök af minni hálfu og sagði ég mig frá þessu verkefni í upphafi árs þegar ég hafði rannsakað feril dr. Goodall og komist að því að leiðir okkar lægju ekki saman. Samviska mín fékk ró, ég var sjálfum mér samkvæmur.

Hvað er mótsagnakennt við málflutning dr. Goodall í málefnum dýraverndar?

1. Jane Goodall segist vera dýravinur og grænmetisæta og mun hafa hafnað rauðu og hvítu kjöti á matseðli sínum við komu sína hingað. Engu að síður gefur hún í skyn að hún þurfi að sína sveigjanleika og huga að eigin hreysti á ýmsum stöðum í veröldinni þar, sem óskamatseðill hennar er óframkvæmanlegur. Þetta er ekki hægt, að skilja öðruvísi en svo ,að séu aðstæður þannig þá borði hún dýr.
Þetta má heyra í lok þessa viðtals:
Heimild: http://www.democracynow.org/2016/1/14/jane_goodall_on_the_threat_of

2. Jane Goodall segist með öllu andvíg tilraunum á dýrum. Í öðru viðtali kemur þó annað í ljós, því miður. Aðspurð gefur hún þetta svar:

Q: Do you believe that biomedical research with primates should be prohibited?

Goodall: Yes, it should be prohibited, unless there is a very clear justification that an experiment could serve to save human lives, for example in the research on diseases like Alzheimer’s and Parkinson’s. I am not necessarily against all research with primates or other animals. What I do believe is that when an experiment is justified for medical reasons, it should take extreme care so that the animals suffer minimally. But we know that today it’s not like that. The reality is that the majority of laboratories are terrifying places.

M.ö.o: þá telur Goodall í lagi að dýr þjáist að einhverju lágmarksmarki í þágu mannsins. Ég er ósammála.

Heimild: http://www.abolitionistapproach.com/goodall-on-vivisection-and-vegetarianism/#.Vz7zBuQghaT

3. Að endingu furðuleg afstaða hennar til dýraréttar að lögum

Dýravernd – Jane Goodall og viðhorf hennar til dýraverndarlaga

Árni Stefán Árnason
dýraréttarlögfræðingur

Mun Guðni Th. Jóhannesson styðja dýravernd með jafn afgerandi hætti og Hillary Clinton forsetaframbjóðandi Bandaríkjanna?

Minkaskinnaframleiðsla er heimiluð í íslenskri löggjöf

Hún hefur þær afleiðingar, sem sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan þar sem lítið minkabarn öskrar á hjálp.

Hillary Clinton verður að öllum líkindum í forsetaframboði í næstu forsetakosningum Bandaríkjanna.

Hún hefur myndað sér skýra skoðun í málefnum dýraverndar, fyrst frambjóðenda til  þjóðarleiðtoga ef ég man rétt. Það er framfaraspor og í anda þess, sem Tryggvi Gunnarsson fyrrv. alþingismaður og frumkvöðull í íslenskri dýravernd kallaði eftir: Glöggum, ákveðnum konum sem stæðu upp og töluðu rödd dýranna. – Það er vert að geta þess að eiginmaður hennar Bill Clinton og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur fyrir löngu látið af öllu kjötáti. Er, að því mér skilst, vegatarian eða jafnvel vegan. Mun hann á nokkurs vafa því hafa mikil áhrif á konu sína í þessum efnum nái hún kjöri.

Hillary tekur undir orð Mahatma Gandhi með smá áherslubreytingu:

,,The way our society treats animals is a reflection of our humanity”

Sjá grein um dýraverndarafstöðu Hillary Clinton

Heimild: Nino Aladdin á facebook

Árni Stefán Árnason,
dýraréttarlögfræðingur

Dýravernd og forsetakosningar

Nú er tækifæri fyrir ykkur dýraverndarfólk.

Í komandi forsetakosningum er sjálfsagt, að spyrja frambjóðendur, opinberlega með hvaða hætti þeir hyggjast beita sér fyrir dýravernd á Íslandi og benda þeim um leið á ýmsa hnökra á starfsháttum framkvæmdavaldsins í þeim efnum.

Sérstaklega er vert, að beina spurningunni til þeirra, sem hafa þá yfirlýstu stefnu að styðja frumvarp Stjórnlagaráðs 2011 svo það verði að stjórnlögum. Í því er dýraverndarákvæði.

Vettvangur fyrir slíkar spurningar er t.d. opið bréf í Fréttablaðinu, sem berst í hvert hús endurgjaldslaust.

Engin núverandi frambjóðenda hefur minnst á dýraverndarmál í þeirri umræðu, sem þegar hefur farið fram þó halda megi því fram að dýraverndarmál séu orðin að daglegu umtalsefni á ýmsum stöðum á Íslandi.

Dýravernd – Jane Goodall og viðhorf hennar til dýraverndarlaga

Dýraréttur er viðurkennt réttarsvið. Ein merkilegasta setning, sem sögð hefur verið um dýravernd var sögð af breskum sérfræðingi í þeim efnum. Hann sagði: ,,Dýraverndarlög hefur því miður þurft að setja til að hemja manninn í neikvæðri framkomu sinni við dýr. Refsiákvæði þeirra eiga að hafa fælniáhrif” – eða eitthvað í þeim dúr ef ég man rétt.

Auk þess eiga dýraverndarlög að tryggja dýrum á valdi mannsins lágmarks velferðaraðbúnað.

Langflest lönd eru með dýraverndarlög, sem hluta af löggjöf sinni. Í nokkrum ríkjum er dýravernd stjórnarskrárbundin. Stjórnarskrárákvæði eru samin, samþykkt og sett í þeim tilgangi að vera stoð fyrir aðrar lægra settar réttarheimildir. Gjarnan er vísað til stjórnarskrárkvæða fyrir dómstólum af þeim sem flytja dýraverndarmál. Flytjendur slíkra mála eru fyrir dómstólum í hlutverki kennara, að upplýsa dómara og reyna að leiða í ljós hvaða réttarheimildir eiga við um tiltekið málefni – málstað sínum og dýravernd til framdráttar.

Jane Goodall um dýraverndarlög
Nú á næstunni mun Jane Goodall halda erindi í Reykjavík um starf sitt. Hún hefur verið spurð um afstöðu sína til þess hvort dýr skuli eiga lögbundin verndarrétt. Samtalið má lesa hér að neðan og heimildina er að finna þar undir.

LS: Do you think that animals should have rights?

JG: I personally am never going to fight for rights per se. All this fighting for human rights and yet we abuse them everyday, all around the world. So while we’re still abusing human rights is it really going to help the animals? It won’t harm them to have rights. I would always say ‘good show’ to the people who fight for them. My approach is different. I’m fighting for human responsibility.

So my job is to make people think of animals differently – as they really are. You can have a law – and we’re surrounded by laws – but it’s so often possible to get around them – they are continually being broken. So I want people to understand that animals really do have personalities and feelings – so that they want to obey laws that protect them.

Heimild: http://www.theecologist.org/Interviews/461445/dr_jane_goodall_im_not_going_to_fight_for_animal_rights.html

Það er þyngra en tárum taki að hlusta á röksemdafærslu, sem þessa. Jane Goodall virðist algerlega skorta skilning á tilgangi og markmiðum lagasetningar: ,,All this fighting for human rights and yet we abuse them everyday, all around the world. So while we’re still abusing human rights is it really going to help the animals”?,,You can have a law – and we’re surrounded by laws – but it’s so often possible to get around them – they are continually being broken”.

Það er, að mínu mati,  svo mikil rökhugsunarvilla í þessu að það er erfitt að svara þessu. – Auðvitað verða að vera til dýraverndarlög. Þegar upp er staðið eru lögin sterkasta vopnið, sem við höfum til þess að berjast fyrir velferð allra dýra. Samfélagsreglur, sem við höfum komið okkur saman um að skuli gilda og æðstu valdastofnanir hafa samþykkt – löggjafar.

Árni Stefán Árnason,
dýraréttarlögfræðingur

DÝRAVERND – JANE GOODALL – TILRAUNIR MEÐ DÝR

Ég ætla mér ekki, að leggja stein í götu komu Jane Goodall tIl Íslands og þessi pistill er ekki til þess ætlaður. Hann er skrifaður til,  að lýsa undrun minni á því að í dag var ég beðin, í facebook skilaboðum af vini og dýraverndarsinna, að hætta að gagnrýna komu Jane Goodall til Íslands en koma hennar er nú auglýst með áberandi hætti á ýmsum facebook miðlum.

Ég lofaði Jane Goodall, um tíma, fyrir framlag sitt til verndar á simpönsum og fyrir að vekja máls á umhverfisvernd. Í nýlegu viðtali viðurkenndi hún að hún styddi tilraunir á dýrum í þágu mannlegra velferðar. Þá snérist mér hugur en ég var á meðal þeirra, sem eru í undirbúningshóp um komu hennar til Íslands. Sagði mig úr því starfi er mér varð framangreint ljóst. Ég er á móti tilraunum á dýrum í þágu manna.

Jane Goodall hefur hlotið athygli fjölmiðla fyrir starf sitt og hefur þar af leiðandi orðið heimsþekkt og m.a. áunnið sér ,,frægð” og athygli hvar sem hún kemur að því er virðist.

Það stuðaði mig þegar ég komst að því að hún styddi tilraunir á dýrum. Hversu heimsþekktur og hversu mikla heimsathygli sá kann, að fá fyrir frægð sína þá hika ég ekki við að lýsa því yfir með, sem mest áberandi hætti, í þágu dýra og til að upplýsa menn, að ég styð ekki tilraunir á dýrum af neinu tagi. Ég hangi ekki í pilsfaldi heimsfrægra einstaklinga, sem eru málstaðnum ekki sannir þó að mér gefist kjörið tækifæri til að efla eigin athygli á þeim málsstað, sem er mér kærastur, vernd dýra í allri þeirri mynd, sem hún er möguleg.

Ég tel mig ekki einu sinni þurfa að velta því fyrir mér hvort þeir, sem titla sig dýravini séu mér sammála um þetta afmarkaða efni, ég geng að því sem vísu. Í dýratilraunum getur falist pynting fyrir dýr, ill meðferð, sem er óheimil á Íslandi. Í því felst siðleysi að mínu mati.

Því vekur það undrun mína að þeir, sem skilgreina sig, sem dýravini skuli engu að síður ennþá halda málflutningi Jane Goodall og lofti þegar undirliggjandi er þessi afstaða hennar til tilrauna á dýrum, hvað þá styðja komu hennar til Íslands.

Fjöldi annara einstaklinga eru jafn áhrifamiklir og Jane Goodall er talin vera t.d. Brian May, gítarleikari hljómsveitarinnar Queen og Lyn White framkvæmdastjóri Animals Australia – fólk með háværar raddir,  sem hafa heillað heimsbyggðina. Raddir þeirra eru sannar!  Fólk á besta aldri, sem lætur auk þess verkin tala, það vita allir sem til þekkja.

Takk fyrir lesturinn,
Árni Stefán Árnason,
dýraréttarlögfræðingur

ÞUNGUR KROSS Í DÝRAVERND

Stjórnleysi, spilling og í sumum tilvikum geðþóttaákvarðanir í tengslum við velferð dýra einkenna oft starfshætti Matvælastofnunar í dýraverndarmálum hvar yfirdýralæknir Sigurborg Daðadóttir er æðsti yfirmaður.

Fyrir þann, utan stofnunarinnar, sem af þekkingu fylgist með starfsháttum hennar þá eru stjórnarhættir þar innan húsa alls ekki boðlegir, sem framkvæmdalds.

Hægt er, að nefna fjölmörg dæmi, bara á síðustu misserum, þar sem stofnunum á ekkert annað en falleikun skilið. Þau dæmi mun ég ekki reka núna heldur síðar og á vettvangi sem, sem flestir hafa aðgang að.

Capture

Hinn þungi kross íslenskra hrossa
Það er þungur kross, sem mörg íslensk hross þurfa að bera ekki einvörðungu vegna íslensks veðurs heldur líka vegna athafnaleysis yfirvalda og hirðuleysis margra eigenda hrossa.

Á áratugi hafa fjölmargir fylgst með slæmum aðbúnaði þeirra um vetur.

Fjölmargir hafa af þekkingu gagnrýnt þetta. Þar á meðal eru Gyrðir Elíasson metsöluhöfundur, dýralæknirinn Sigurður Sigurðarson o.fl. þ.á.m ég. Gagnýnin hefur verið byggð á góðum rökstuðningi. Til hvers ættum við að benda á hið augljósa ef það á ekki við nein rök að styðjast?

Nú sendir Matvælastofnun skósvein sinn í fjölmiðla hvar hann niðurlægir gagnrýni á aðbúnað hrossa að vetri. Ég undrast, að fulltrúar frá Dýraverndarsambandi Íslands, sem sitja í í fagráði um velferð dýra skv. 5. gr. dýravelferðarlaga skuli ekki hafa verið kallað saman til, að fjalla um réttmætar ábendingar Sigurðar Sigurðssonar. Hann fer ekki með fleipur svo mikið er víst.

Nóg er komið af þessum verklagi MAST og tímabært, að opinbera hvað er á ferðinni. Munu margir verðar undrandi. Dýraverndarþátt Matvælastofnunar þarf að taka til algerrar uppstokkunar að mínu mati. Taka hann helst úr höndum stöfnunarinnar og fela hlutlausum aðila, sem lýtur ekki pólitísku valdi.

Frétt Stöðvar2 – andmæli MAST á gagnrýni um slæma meðferð hrossa

Grimmileg meðferð KFC manneldiskjúklinga

Dalai Lama mótmælir KFC-útibúi í Tíbet

Heimsathygli hafa hlotið ummæli hins andlega heims leiðtoga Dalai Lama, sem lýst hefur að grimmileg meðferð á kjúklingum sem er slátrað fyrir bandarísku skyndibitakeðjuna KFC sé andstæð gildum sem Tíbetbúar hafi í hávegum. Frans páfi talar í svipuðum dúr og beinir því til allra þjóða heims, að umgangast öll dýr af sömu virðingu og maðurinn ætlast til að honum sjálfum sé sýnd.

Á Íslandi er fjöldinn allur af kjúklingabúum og eftirlit Matvælastofnunar undir yfirstjórn Sigurborgar Daðadóttur, yfirdýralæknis oft bágborið eins og dæmin sanna sbr. fréttir um svínaníð og nýlega opinbera umfjöllun Sigurðar Sigurðssonar, dýralæknis, um illa meðferð hrossa á suðurlandi.

Deilið

Frétt RÚV

Níðst á hrossum – Harmageddon við Sigurð Sigurðarson um hestaníð

Sigurður Sigurðarson er kyndilberi íslenskrar dýraverndar
og hefur verið það um árabil. Einkum lætur hann sig velferð hrossa varða. Hross, sem haldin eru úti í slæmri vetrartíð, oft án lögboðins skjóls og fóðurs. Telur hann að þau líði verulega vegna þessa.

Sigurður

Tvö dýraverndarfélög eru í landinu. Hvorugt lætur sig þetta alvarlega mál varða í fjölmiðlum né eigin netmiðlum. Dapur sofandaháttur.

Sjálfur hefur pistilhöfundur margsinnis skrifað um þetta í fjölmiðlum.

Svo virðist, sem hrossaeigendur hafi eitthvert tangarhald á Matvælastofnun, sem heldur aftur af yfirdýralækni, Sigurborgu Daðadóttur,  að aðhafast eitthvað í þessum málum, sem hafa verið viðvarandi vandamál út um allt land í áratugi.

Hlusta má á viðtalið við Sigurð hér

Grein Sigurðar í Fréttablaði suðurlands – Það mun engin frá frið fyrir mér.